M i ð nætti
Leikhópinn Miðnætti stofnuðu leikkonan og leikstjórinn Agnes Wild, tónlistarkonan Sigrún Harðardóttir og leikmynda- og búningahönnuðurinn Eva Björg Harðardóttir. Leikhópurinn hefur einbeitt sér að sviðslistum fyrir börn og var tilnefndur til Grímuverðlaunanna 2017 í flokkunum „Barnasýning ársins“ og „Dans og sviðshreyfingar ársins“ fyrir sýninguna Á eigin fótum.
Síðustu verkefni Miðnættis eru m.a. leiksýningin Jólaævintýri Þorra og Þuru sem var sýnd í Tjarnarbíói 2019 og 2020, sjónvarpsþættirnir Týndu jólin og Þorri og Þura: Vinir í raun í samstarfi við RÚV, leiksýningin Djákninn á Myrká í samstarfi við Leikfélag Akureyrar og bunraku-brúðusýningin Á eigin fótum sem sýnd hefur verið á Íslandi, Grænlandi, í Póllandi og Eistlandi og hefur einnig verið boðið á heimsþing ASSITEJ (samtaka um leikhús fyrir unga áhorfendur) sem fram fer í Japan 2021.
Agnes Wild lauk BA námi í leiklist frá East 15 acting school í London árið 2013.
Hún er einn stofnenda leikhópsins Miðnættis en hópurinn hlaut tilnefningu til Grímuverðlaunanna 2017 fyrir sýninguna Á eigin fótum sem barnasýning ársins. Nú síðast setti Miðnætti upp sýninguna Djákninn á Myrká, Sagan sem aldrei var sögð hjá Menningarfélagi Akureyrar og Jólaævintýri Þorra og Þuru í Tjarnarbíói.
Meðal annarra leikstjórnar verkefna má nefna Tréð með leikhópnum Lalalab (2020), Karíus og Baktus í Hörpu (2020), Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist með leikhópnum Umskiptingar og MAK, Fokkað í Fullveldinu á vegum fullveldishátíðar og Þjóðleikhússins (2018), Shrek og Legally blonde fyrir Kvennaskólann (2018 og 2017), Krúnk krúnk og dirrindí fyrir Menningarfélag Akureyrar (2018) og Elska með leikhópnum Artik (2016). Árið 2015 var Agnes aðstoðarleikstjóri í sýningunni Í Hjarta Hróa Hattar í Þjóðleikhúsinu. Agnes er einn stofnenda leikhópsins Lost Watch theatre sem starfar í London.
Eva Björg Harðardóttir lauk MA námi í leikmynda- og búningahönnun frá University of the Arts London árið 2016. Eva Björg er einn stofnenda leikhópsins Miðnættis og hefur hannað búninga og leikmyndir fyrir öll verkefni hópsins, þar á meðal Á eigin fótum (2017) sem hlaut tvær Grímutilnefningar, Djákninn á Myrká: Sagan sem aldrei var sögð (2019), Jólaævintýri Þorra og Þuru (2019) og sjónvarpsþættina Týndu jólin (2018) og Þorri og Þura:Vinir í raun (2020).
Meðal annarra verka sem Eva Björg hefur hannað eru sýningin Tréð með leikhópnum Lalalab (2020), Ástarjátning með kammerhópnum Cauda Collective (2020), Shrek fyrir Kvennaskólann (2019), Krúnk krúnk og dirrindí fyrir Menningarfélag Akureyrar (2018), Fokkað í Fullveldinu á vegum fullveldishátíðar og Þjóðleikhússins (2018), Róló með Sirkus Íslands (2017), Framhjá rauða húsinu og niður stigann með leikhópnum Umskiptingum (2017) og Elska með leikhópnum Artik (2016). Einnig hefur Eva Björg starfað við kvikmyndagerð og sviðssetningar fyrir viðburði og heimildaþætti.
Sigrún Harðardóttir lauk BMus frá Listaháskóla Íslands 2011 og MMus gráðu í fiðluleik frá University of Denver 2014. Sem fiðluleikari hefur hún spilað með tónlistarhópum á borð við Skark, Caput, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Björk og Ólafi Arnalds, en með honum hefur hún spilað á tónleikum víða um heim, m.a. í Óperuhúsinu í Sidney og Elbphilharmonie í Hamburg. Sigrún er stofnmeðlimur kammerhópsins Cauda Collective og leikhópsins Miðnætti og hefur samið alla tónlist í leikverkum og sjónvarpsefni Miðnættis, meðal annars tvær sjónvarpsþáttaseríur með RÚV um álfana Þorra og Þuru og brúðusýninguna Á eigin fótum sem var tilnefnd til Grímuverðlaunanna 2017 í flokknum Barnasýning ársins og hefur verið sýnd víða um heim, m.a í Grænlandi, Eistlandi og Póllandi.